Kenningar kommúnismans um kynjajafnrétti byggðu á grundvallar markmiðum kommúnismans. Þær þróuðust á löngum tíma og komu úr auðugum jarðvegi kenninga og umræðu síns tíma. Hér verður fjallað um verk fimm kenningasmiða og femínista um kynjajafnrétti.

August Bebel (f. 1840 – d. 1913) skrifaði bók árið 1879, Konur og Félagshyggja (Die Frau und der Sozialismus), um stöðu kvenna í samfélagi hans og hvernig félagshyggja gæti bætt hana. Bókin kom út í meira en fimmtíu útgáfum áður en Bebel lést. Margar útgáfur hennar voru undir fölsku nafni, því hún var bönnuð víða í Þýskalandi. Einnig breyttist bókin milli útgáfa vegna nýrra hugmynda og áhrifa frá til dæmis Friedrich Engels og Clöru Zetkin, sem fjallað verður um hér neðar. Nálgun Bebels var ný af nálinni. Hann fjallaði eingöngu um stöðu kvenna í bók sinni og ekki aðeins frá þröngu sjónarhorni heldur um fjölmargar hliðar málsins. Hann var ekki fræðimaður heldur vel þekktur stjórnmálamaður í Jafnaðarflokki Þýskalands, sem reyndi að tengja stöðu kvenna við baráttu öreiganna.

Höfuðlögmál Bebels var að grundvöllur samfélagslegrar kúgunnar væri að sá sem er kúgaður er efnahagslega háður kúgara sínum. Þetta lögmál útfærði hann bæði fyrir konur og verkalýðinn. Líkt og skoðanabræður hans notaðist hann við sögulega skoðun, en greindi einnig samtímann og framtíðina.

Bebel sagði kristindóminn hafa kúgað konur og ólíkt Marx og Engels, sem einblíndu á stöðu kvenna í samhengi við fjölskyldu og atvinnu, ræddi hann um kynferði og kynfrelsi fólks. Hann sagði að „fyrir báða aðila er kynhvötin auk þarfarinnar fyrir svefn og mat sterkasta eðlishvötin hjá mönnunum“ og að „[s]kortur á fullnægingu kynferðislegra þarfa þýði óheilbrigðan líkamlegan og andlegan þroska.“


Bebel hélt áfram fyrri gagnrýni Marx og Engels á hjónabandinu. Auk þess sem hann skoðaði stöðu kvenna út frá vændi, kosningaréttinum og félagslegri mótun þeirra. Á þeim tíma, sem konur voru taldar nátturulega minna gáfaðar heldur en karlar. Hann benti hins vegar á í bók sinni að minni þekking kvenna væri ekki af náttúrunnar hendi, heldur hefðu karlar mótað þær á þennan hátt með því að meina þeim um skólagöngu, atvinnu og þátttöku í stjórnmálum. August Bebel sá fyrir sér framtíð jafnaðarstefnunnar sem jafnréttissinnað samfélag þar sem konur og karlar væru virt sem einstaklingar og ynnu samhliða.

Meira...

Marx (1818 - 1883) heillaðist af hugmyndum Engels (1820 – 1895) um galla á markaðnum í Ársritinu, sem þeir báðir höfðu skrifað í. Þeir urðu félagar eftir að hafa hist á kaffihúsi í París og ákváðu í kjölfarið að skrifa saman bók. Það varð upphafið af ævilöngu samstarfi og vináttu. Upphaflega tóku þeir fyrir stöðu fjölskyldunnar og hjónabandsins en „[í] samfélagslýsingum þeirra var ekki notast við stöðu kvenna sem mælitæki fyrir framför, og vinna kvenna var ekki tekin sérstaklega til greina í stéttarbaráttunni“.

Árið 1844 hafði Engels, sem þá var aðeins 24 ára, skrifað grein um það hvernig verksmiðjur eyðilögðu efnahagslega samvinnu fjölskyldunnar,
síðustu sameiginlegu hagsmuni hennar. Jafnvel níu ára gömul börn ynnu fyrir sér sjálf og fjölskyldan væri í upplausn. Á sama tíma skrifaði Marx Parísarhandritin, sem komu þó ekki út fyrr en löngu síðar. Í þeim gagnrýndi hann trúarlegt gildi hjónabandsins og sagði það aðeins vera eitt form einkaeignarinnar, því karlinn ætti konuna. Hans skoðun var sú að hjónabandið ætti aðeins að hafa siðferðilegt gildi. Þetta var grunnurinn að hugmyndum þeirra um hjónaband sem félagslega stofnun.

Heilaga fjölskyldan, frá sama
ári, var afrakstur fyrsta samstarfs Marx og Engels. Í þeirri bók nefndu þeir frelsun kvenna fyrst á nafn. Þeir gagnrýndu hjónabandið sem stofnun, að konur réðu ekki hverjum þær giftust, að konur væru seldar af feðrum sínum og fordóma gagnvart einstæðum mæðrum. Bækur þeirra vöktu þó enga athygli, nema í fámennum hópi alþjóðasinnaðra aðgerðasinna, fyrr en eftir uppreisn borgaranna gegn Parísar- kommúninni árið 1871.

Það er því ljóst að í upphafi voru rit Marx og Engels ekki á
femínískum forsendum. Það var vegna skilgreiningar þeirra á hjónabandinu sem stofnun og eignarréttar karla á konum sem þeir fóru að hugsa um frelsun kvenna.

Engels varð fyrri til þess að ræða um konur og atvinnu í því samhengi. Hann
rannsakaði breskar verksmiðjur og verkamannafjölskyldur. Hann komst að því að laun kvenna og barna drógu niður laun allra og að launin væru það lág að allir fjölskyldumeðlimir þyrftu að vinna fyrir heimilinu. Ef fáir voru vinnufærir gat fólkið ekki lifað af laununum. Börn voru vanrækt því mæður þeirra unnu 12 – 13 klukkustundir á dag, slysatíðni barna, ungbarnadauði og fósturlát voru tíð. Þótt hann hefði áhyggjur af þessu vildi hann ekki að konur færu aftur í sama farið og áður, því þær hefðu ekki verið betur settar sem heimavinnandi húsmæður. Þar byggir hann grunninn að því sem síðar varð hugmyndin um að samfélagið ætti að sjá um vinnu heimilisins í sameiningu – barnaheimili, vöggustofur, súpueldhús. Hann álasaði ekki konunum fyrir að draga niður launin og vanrækja börnin, heldur kenndi hann göllum hins kapítalíska kerfis um arðrán fjölskyldunnar. Það var ekki fyrr en sautján árum síðar að Marx (1867) ræddi fyrst stöðu kvenna í Auðmagninu.

Fyrsta ritið sem greindi stöðu kvenna á samfelldan hátt var rit Engels Uppruni fjölskyldunnar, einkaeignarinnar og ríkisins, byggt aðallega á glósum Marx. Ritið varð gríðarlega vinsælt og Lenin (1961) sagði það vera "eitt af grundvallarverkum nútíma félagshyggju".

Kenningu Engels (1884) um kvenréttindi má skipta í þrjá þætti. Í fyrsta lagi endurbyggingu fortíðarinnar, þar sem hann reyndi að sýna fram á jafnrétti kynjanna í fornum samfélögum. Hann ályktaði að „það að konan hafi verið þræll karlmannsins við upphaf samfélagsins [væri] ein af fáránlegustu hugmyndum sem hafi komið upp frá tímabili Upplýsingar átjándu aldar.“ Þannig rökstuddi hann að staða konunnar væri í raun nýtt vandamál, sem hafði ekki verið til fyrr en kapítalískt kerfi tók að þróast.Í öðru lagi kúgun kvenna undir kapítalisma sem hann sagði stafa af einkaþjónusta konunnar við fjölskylduna, að konur gætu ekki unnið utan heimilisins og fjárhagslegu ósjálfstæði kvenna gagnvart körlum. Einnig talaði hann gegn fyrirkomulagi borgarlegrar hentisemi-hjónabanda. Hann sagði þau niðurdrepandi og líkti þeim við vændi.

"Þar sem, í öllum tegundum hjónabanda, hins vegar, er fólk áfram það sem það var áður en það giftist, og þar sem að þegnar mótmælenda landa eru flestir Fílestínar, leiðir þetta einkvæni mótmælenda aðeins, ef við tökum meðaltal bestu dæmanna, til hjónalífs í algjörum leiðindum, sem er lýst sem hamingjusömu heimilislífi ... þetta hentisemi hjónaband breytist oft í gróft vændi – stundum beggja aðila en yfirleitt eiginkonunnar sem aðskilur sig aðeins venjulegri vændiskonu í því að hún leigir ekki út líkama sinn, eins og verktaki, á verkefni, heldur selur hann til þrælkunar í eitt skipti fyrir öll" (Engels, 1978: 741 – 742).

Í þriðja lagi fjallar kenning Engels um stöðu kvenna, um frelsun þeirra undir kommúnísku kerfi. Félagslegt jafnrétti kynjanna átti að nást þegar hætt yrði að útiloka konur frá opinberum vettvangi. Það gæti aðeins gerst með kommúnískri byltingu, því var það að breyta einkaeignum í ríkiseignir mikilvæg forsenda þess að frelsa konur. Forsendur jafnréttis voru þátttaka kvenna á vinnumarkaðnum og að ríkið tæki að sér að dagvistun barna og heimilisstörf.

Í Austur – Evrópu náðist aðeins að framkvæma fyrri forsendu Engels fyrir jafnrétti og hluta þeirrar seinni. Nánast allar konur unnu úti og dagvistun var komið upp, en ríkið tók aldrei að sér heimilisstörf kvenna og unnu þær því tvöfalda vinnu.

Meira...


Hin þýska Clara Zetkin (f. 1857 – d. 1933) upplifði uppreisn bolsévika, sem varð eftir dauða Marx og Engels. Bolsévikar náðu völdum í Sovétríkjunum árið 1917. Þeir voru undir miklu áhrifum frá hugmyndum Marx og Engels um upplausn fjölskyldunnar og ríkisvæðingu heimilishaldsins. Ólíkt nútíma femínistum, sem vilja jafna skiptingu á heimilisstörfum innan heimilanna, sáu þeir fyrir sér að ríkið leysti konur undan heimilisstörfunum með sameiginlegum mötuneytum, dagheimilum og opinberum þvottahúsum. Þá yrðu konur jafnar körlum. Sameiginlegar tilfinningar og virðing myndu leysa af lagalegt og efnahagslegt ósjálfstæði sem grundvöllur fyrir samskipti kynjanna.

Tuttugu árum eftir að Marx lést skrifaði Zetkin grein sem bar nafnið „Hvað konurnar skulda Karli Marx“, Þar sem hún fór yfir atriði í kenningum hans sem hjálpuðu konum, að hennar mati, að sjá hvað væri að.

"Það er ljóst að Marx hefur ekki fengist sérstaklega við kvennaspurninguna sem einangrað vandamál. Þrátt fyrir það hefur hann þróað eitthvað óútskiptanlegt, já það mikilvægasta í baráttu kvenna til fullra réttinda. Með uppgötvun sögulegrar efnishyggju hefur hann augljóslega ekki gefið okkur tilbúnar formúlur um kvennaspurninguna, heldur það, sem er betra: hina réttu, skotheldu aðferð til þess að rannsaka og skilja hana" (Zetkin, 1974: 47).

Auk sögulegrar efnishyggju þakkaði Zetkin honum þá sýn að samfélaginu megi breyta til betri vegar, þar hafi hann gefið konum tækifæri til þess berjast fyrir réttindum þeirra.

"Hann fyllir okkur fyrst og fremst með þeirri sannfæringu, að það eru aðeins upphafin markmið, sem gefa hinni daglegu vinnu virði og þýðingu. Þannig, hindrar hann okkur í að missa þá miklu grundvallandi viðurkenningu á eðli hreyfingar okkar í hendurnar á einföldum fyrirbærum, verkefnum og niðurstöðum og vegna hins daglega erfiðis að missa sjónar af hinum víða sögulega sjóndeildarhring, sem morgunroði nútímans brýst fram við" (Zetkin, 1974: 52).

Um rit Engels, Uppruni fjölskyldunnar, einkaeignarinnar og ríkisins, sagði hún hafa orðið grundvallarrit kvenna til að skilja félagslega stöðu þeirra og hlutverk í einkalífinu og hinu opinbera. Í Auðmagninu hafi Marx útskýrt hvernig kapítalisminn notar karla, konur og börn til vinnu, eyðileggur fjölskylduformið og geri það að einkaeign borgaranna.

Hugmyndir Marx og Engels voru mikilvægur grunnur baráttunnar fyrir kynjajafnrétti þess tíma en það voru tilraunir manna til þess að koma hugmyndunum í framkvæmd einnig. Clara Zetkin var ein lykilmanneskja í því. Hún var áhrifamikil innan þýska Jafnaðarflokksins, evrópsku jafnaðarhreyfingarinnar og við stofnun fyrstu alþjóðlegu kvennasamtaka jafnaðarmanna. Hún lagði ríka áherslu á konur og kynjajafnrétti og sýn hennar er á kommúnisma vel lýst með frægri setningu hennar „enn frekar heldur en fyrir karlkyns öreigana, gildir það fyrir ykkur öreigakonur, að í þessari baráttu hafið þið aðeins hlekkjunum að tapa, en heiminn að vinna.“

Í augum Zetkin var launuð vinna grundvöllurinn fyrir sjálfstæði kvenna. Hún barðist gegn íhaldssömum flokksfélögum sínum sem vildu fá konurnar heim, því þær héldu launum karla niðri. Hún sagði að ef atvinnurekendur vildu aðeins að konur ynnu því þær væru ódýrt vinnuafl, þá ættu kommúnista að berjast fyrir sömu launum fyrir sömu störf. Jafnfram, varð hún fyrst til þess að tengja ólíka stöðu kvenna við ólíka stétt í samfélaginu. Zetkin hafði málstað kvenna alltaf fremstan í huga og hafði þess vegna mikil áhrif á kvennabaráttu síns tíma.

Meira...


Hvað einkalíf kvenna varðaði hafði Engels rómantískar hugmyndir um að í kommúnísku ríki framtíðarinnar yrði fólk ástfangið og réði því sjálft hverjum það giftist. Alexandra Kollontai (f. 1872 – d. 1952), ein af fáum háttsettum, kvenkyns bolsévikum, var á sama máli og var eini kommúnisti síns tíma sem hélt áfram að þróa hugmyndir Engels.

Í Rússlandi voru hugmyndir Bebel og Zetkin einnig vel þekktar. Eftir að Kollontai hitti Zetkin persónulega árið 1906 sannfærðist hún um nauðsyn þess að skipuleggja kvennasamtök verkakvenna. Kollontai var eini leiðtoginn sem opinberlega tengdi við persónulegt frelsi, jafnrétti og virðingu milli kvenna og karla í einkalífinu. Hún upplifði hnignun bolsvísku hugsjónarinnar og tímabil mun íhaldsamari hugmynda eftir árið 1936.

Bolsévikar voru ekki aðeins undir evrópskum áhrifum heldur voru frelsun kvenna og frjálsar ástir einnig gömul byltingartengd gildi í Rússlandi. En líkt og aðrir bolsévikar tengdi Kollontai fjölskylduna við eignarhald kapítalismans. Hún varð fyrst til þess að koma fram með marxíska greiningu á því hvernig fjölskyldan tapaði framleiðsluhlutverki sínu á leiðinni frá bændasamfélagi í öreigasamfélag. Í bændasamfélaginu hafði fjölskyldan verið sjálfbær efnahagsleg eining en með tilkomu iðnvæðingarinnar hafi hún breyst í lokaða efnahagslega einingu, þar sem karlinn var fyrirvinnan og konan háð honum. Þessu vildi hún breyta og sagði kommúnisma vera leiðina til þess. Með því að samfélagsvæða hlutverk fjölskyldunnar, uppeldi barnanna, matargerð, fatagerð og svo framvegis varð til nýtt form. Þessi kenning tengdist hugmyndum hennar um kynfrelsi einstaklinga. Að losna undan arfi eignarhalds karla á konum og skapa jafnræði þeirra á milli. Í anda bolsévika skrifaði Kollontai

"Þegar fjölskyldan er frjáls undan öllum efnahagslegum skyldum, ber ekki ábyrgð á komandi kynslóð, og er ekki lengur grundvallar uppspretta tilvistar kvenna, hættir hún að vera fjölskylda. Hún minnkar og breytist í samband milli hjóna, sem byggir á gagnkvæmum samningi ... [f]jölskyldan sem efnahagsleg eining, og líka sem eining foreldra og barna, er dæmd til þess að hverfa" (Møller o.fl. 1977: 438).

En róttækar hugmyndir Kollontai og bolsévikanna áttu ekki uppi á pallborðið hjá öllum og voru með tímanum gagnrýndar harkalega. Eftir borgarastríð og harða vetur í Rússlandi vildu konur ekki lengur leysa upp fjölskylduna heldur upphöfðu móðurhlutverkið. Síðar var hætt að gefa út verk Kollontai. Hún var send í útlegð frá Rússlandi og hugmyndir hennar viku fyrir mun íhaldsamari hugmyndum um minna persónulegt og félagslegt frelsi.

Meira...