Hin þýska Clara Zetkin (f. 1857 – d. 1933) upplifði uppreisn bolsévika, sem varð eftir dauða Marx og Engels. Bolsévikar náðu völdum í Sovétríkjunum árið 1917. Þeir voru undir miklu áhrifum frá hugmyndum Marx og Engels um upplausn fjölskyldunnar og ríkisvæðingu heimilishaldsins. Ólíkt nútíma femínistum, sem vilja jafna skiptingu á heimilisstörfum innan heimilanna, sáu þeir fyrir sér að ríkið leysti konur undan heimilisstörfunum með sameiginlegum mötuneytum, dagheimilum og opinberum þvottahúsum. Þá yrðu konur jafnar körlum. Sameiginlegar tilfinningar og virðing myndu leysa af lagalegt og efnahagslegt ósjálfstæði sem grundvöllur fyrir samskipti kynjanna.

Tuttugu árum eftir að Marx lést skrifaði Zetkin grein sem bar nafnið „Hvað konurnar skulda Karli Marx“, Þar sem hún fór yfir atriði í kenningum hans sem hjálpuðu konum, að hennar mati, að sjá hvað væri að.

"Það er ljóst að Marx hefur ekki fengist sérstaklega við kvennaspurninguna sem einangrað vandamál. Þrátt fyrir það hefur hann þróað eitthvað óútskiptanlegt, já það mikilvægasta í baráttu kvenna til fullra réttinda. Með uppgötvun sögulegrar efnishyggju hefur hann augljóslega ekki gefið okkur tilbúnar formúlur um kvennaspurninguna, heldur það, sem er betra: hina réttu, skotheldu aðferð til þess að rannsaka og skilja hana" (Zetkin, 1974: 47).

Auk sögulegrar efnishyggju þakkaði Zetkin honum þá sýn að samfélaginu megi breyta til betri vegar, þar hafi hann gefið konum tækifæri til þess berjast fyrir réttindum þeirra.

"Hann fyllir okkur fyrst og fremst með þeirri sannfæringu, að það eru aðeins upphafin markmið, sem gefa hinni daglegu vinnu virði og þýðingu. Þannig, hindrar hann okkur í að missa þá miklu grundvallandi viðurkenningu á eðli hreyfingar okkar í hendurnar á einföldum fyrirbærum, verkefnum og niðurstöðum og vegna hins daglega erfiðis að missa sjónar af hinum víða sögulega sjóndeildarhring, sem morgunroði nútímans brýst fram við" (Zetkin, 1974: 52).

Um rit Engels, Uppruni fjölskyldunnar, einkaeignarinnar og ríkisins, sagði hún hafa orðið grundvallarrit kvenna til að skilja félagslega stöðu þeirra og hlutverk í einkalífinu og hinu opinbera. Í Auðmagninu hafi Marx útskýrt hvernig kapítalisminn notar karla, konur og börn til vinnu, eyðileggur fjölskylduformið og geri það að einkaeign borgaranna.

Hugmyndir Marx og Engels voru mikilvægur grunnur baráttunnar fyrir kynjajafnrétti þess tíma en það voru tilraunir manna til þess að koma hugmyndunum í framkvæmd einnig. Clara Zetkin var ein lykilmanneskja í því. Hún var áhrifamikil innan þýska Jafnaðarflokksins, evrópsku jafnaðarhreyfingarinnar og við stofnun fyrstu alþjóðlegu kvennasamtaka jafnaðarmanna. Hún lagði ríka áherslu á konur og kynjajafnrétti og sýn hennar er á kommúnisma vel lýst með frægri setningu hennar „enn frekar heldur en fyrir karlkyns öreigana, gildir það fyrir ykkur öreigakonur, að í þessari baráttu hafið þið aðeins hlekkjunum að tapa, en heiminn að vinna.“

Í augum Zetkin var launuð vinna grundvöllurinn fyrir sjálfstæði kvenna. Hún barðist gegn íhaldssömum flokksfélögum sínum sem vildu fá konurnar heim, því þær héldu launum karla niðri. Hún sagði að ef atvinnurekendur vildu aðeins að konur ynnu því þær væru ódýrt vinnuafl, þá ættu kommúnista að berjast fyrir sömu launum fyrir sömu störf. Jafnfram, varð hún fyrst til þess að tengja ólíka stöðu kvenna við ólíka stétt í samfélaginu. Zetkin hafði málstað kvenna alltaf fremstan í huga og hafði þess vegna mikil áhrif á kvennabaráttu síns tíma.

Engin ummæli: