Marx (1818 - 1883) heillaðist af hugmyndum Engels (1820 – 1895) um galla á markaðnum í Ársritinu, sem þeir báðir höfðu skrifað í. Þeir urðu félagar eftir að hafa hist á kaffihúsi í París og ákváðu í kjölfarið að skrifa saman bók. Það varð upphafið af ævilöngu samstarfi og vináttu. Upphaflega tóku þeir fyrir stöðu fjölskyldunnar og hjónabandsins en „[í] samfélagslýsingum þeirra var ekki notast við stöðu kvenna sem mælitæki fyrir framför, og vinna kvenna var ekki tekin sérstaklega til greina í stéttarbaráttunni“.

Árið 1844 hafði Engels, sem þá var aðeins 24 ára, skrifað grein um það hvernig verksmiðjur eyðilögðu efnahagslega samvinnu fjölskyldunnar,
síðustu sameiginlegu hagsmuni hennar. Jafnvel níu ára gömul börn ynnu fyrir sér sjálf og fjölskyldan væri í upplausn. Á sama tíma skrifaði Marx Parísarhandritin, sem komu þó ekki út fyrr en löngu síðar. Í þeim gagnrýndi hann trúarlegt gildi hjónabandsins og sagði það aðeins vera eitt form einkaeignarinnar, því karlinn ætti konuna. Hans skoðun var sú að hjónabandið ætti aðeins að hafa siðferðilegt gildi. Þetta var grunnurinn að hugmyndum þeirra um hjónaband sem félagslega stofnun.

Heilaga fjölskyldan, frá sama
ári, var afrakstur fyrsta samstarfs Marx og Engels. Í þeirri bók nefndu þeir frelsun kvenna fyrst á nafn. Þeir gagnrýndu hjónabandið sem stofnun, að konur réðu ekki hverjum þær giftust, að konur væru seldar af feðrum sínum og fordóma gagnvart einstæðum mæðrum. Bækur þeirra vöktu þó enga athygli, nema í fámennum hópi alþjóðasinnaðra aðgerðasinna, fyrr en eftir uppreisn borgaranna gegn Parísar- kommúninni árið 1871.

Það er því ljóst að í upphafi voru rit Marx og Engels ekki á
femínískum forsendum. Það var vegna skilgreiningar þeirra á hjónabandinu sem stofnun og eignarréttar karla á konum sem þeir fóru að hugsa um frelsun kvenna.

Engels varð fyrri til þess að ræða um konur og atvinnu í því samhengi. Hann
rannsakaði breskar verksmiðjur og verkamannafjölskyldur. Hann komst að því að laun kvenna og barna drógu niður laun allra og að launin væru það lág að allir fjölskyldumeðlimir þyrftu að vinna fyrir heimilinu. Ef fáir voru vinnufærir gat fólkið ekki lifað af laununum. Börn voru vanrækt því mæður þeirra unnu 12 – 13 klukkustundir á dag, slysatíðni barna, ungbarnadauði og fósturlát voru tíð. Þótt hann hefði áhyggjur af þessu vildi hann ekki að konur færu aftur í sama farið og áður, því þær hefðu ekki verið betur settar sem heimavinnandi húsmæður. Þar byggir hann grunninn að því sem síðar varð hugmyndin um að samfélagið ætti að sjá um vinnu heimilisins í sameiningu – barnaheimili, vöggustofur, súpueldhús. Hann álasaði ekki konunum fyrir að draga niður launin og vanrækja börnin, heldur kenndi hann göllum hins kapítalíska kerfis um arðrán fjölskyldunnar. Það var ekki fyrr en sautján árum síðar að Marx (1867) ræddi fyrst stöðu kvenna í Auðmagninu.

Fyrsta ritið sem greindi stöðu kvenna á samfelldan hátt var rit Engels Uppruni fjölskyldunnar, einkaeignarinnar og ríkisins, byggt aðallega á glósum Marx. Ritið varð gríðarlega vinsælt og Lenin (1961) sagði það vera "eitt af grundvallarverkum nútíma félagshyggju".

Kenningu Engels (1884) um kvenréttindi má skipta í þrjá þætti. Í fyrsta lagi endurbyggingu fortíðarinnar, þar sem hann reyndi að sýna fram á jafnrétti kynjanna í fornum samfélögum. Hann ályktaði að „það að konan hafi verið þræll karlmannsins við upphaf samfélagsins [væri] ein af fáránlegustu hugmyndum sem hafi komið upp frá tímabili Upplýsingar átjándu aldar.“ Þannig rökstuddi hann að staða konunnar væri í raun nýtt vandamál, sem hafði ekki verið til fyrr en kapítalískt kerfi tók að þróast.



Í öðru lagi kúgun kvenna undir kapítalisma sem hann sagði stafa af einkaþjónusta konunnar við fjölskylduna, að konur gætu ekki unnið utan heimilisins og fjárhagslegu ósjálfstæði kvenna gagnvart körlum. Einnig talaði hann gegn fyrirkomulagi borgarlegrar hentisemi-hjónabanda. Hann sagði þau niðurdrepandi og líkti þeim við vændi.

"Þar sem, í öllum tegundum hjónabanda, hins vegar, er fólk áfram það sem það var áður en það giftist, og þar sem að þegnar mótmælenda landa eru flestir Fílestínar, leiðir þetta einkvæni mótmælenda aðeins, ef við tökum meðaltal bestu dæmanna, til hjónalífs í algjörum leiðindum, sem er lýst sem hamingjusömu heimilislífi ... þetta hentisemi hjónaband breytist oft í gróft vændi – stundum beggja aðila en yfirleitt eiginkonunnar sem aðskilur sig aðeins venjulegri vændiskonu í því að hún leigir ekki út líkama sinn, eins og verktaki, á verkefni, heldur selur hann til þrælkunar í eitt skipti fyrir öll" (Engels, 1978: 741 – 742).

Í þriðja lagi fjallar kenning Engels um stöðu kvenna, um frelsun þeirra undir kommúnísku kerfi. Félagslegt jafnrétti kynjanna átti að nást þegar hætt yrði að útiloka konur frá opinberum vettvangi. Það gæti aðeins gerst með kommúnískri byltingu, því var það að breyta einkaeignum í ríkiseignir mikilvæg forsenda þess að frelsa konur. Forsendur jafnréttis voru þátttaka kvenna á vinnumarkaðnum og að ríkið tæki að sér að dagvistun barna og heimilisstörf.

Í Austur – Evrópu náðist aðeins að framkvæma fyrri forsendu Engels fyrir jafnrétti og hluta þeirrar seinni. Nánast allar konur unnu úti og dagvistun var komið upp, en ríkið tók aldrei að sér heimilisstörf kvenna og unnu þær því tvöfalda vinnu.

Engin ummæli: