Kenningar kommúnismans um kynjajafnrétti byggðu á grundvallar markmiðum kommúnismans. Þær þróuðust á löngum tíma og komu úr auðugum jarðvegi kenninga og umræðu síns tíma. Hér verður fjallað um verk fimm kenningasmiða og femínista um kynjajafnrétti.

August Bebel (f. 1840 – d. 1913) skrifaði bók árið 1879, Konur og Félagshyggja (Die Frau und der Sozialismus), um stöðu kvenna í samfélagi hans og hvernig félagshyggja gæti bætt hana. Bókin kom út í meira en fimmtíu útgáfum áður en Bebel lést. Margar útgáfur hennar voru undir fölsku nafni, því hún var bönnuð víða í Þýskalandi. Einnig breyttist bókin milli útgáfa vegna nýrra hugmynda og áhrifa frá til dæmis Friedrich Engels og Clöru Zetkin, sem fjallað verður um hér neðar. Nálgun Bebels var ný af nálinni. Hann fjallaði eingöngu um stöðu kvenna í bók sinni og ekki aðeins frá þröngu sjónarhorni heldur um fjölmargar hliðar málsins. Hann var ekki fræðimaður heldur vel þekktur stjórnmálamaður í Jafnaðarflokki Þýskalands, sem reyndi að tengja stöðu kvenna við baráttu öreiganna.

Höfuðlögmál Bebels var að grundvöllur samfélagslegrar kúgunnar væri að sá sem er kúgaður er efnahagslega háður kúgara sínum. Þetta lögmál útfærði hann bæði fyrir konur og verkalýðinn. Líkt og skoðanabræður hans notaðist hann við sögulega skoðun, en greindi einnig samtímann og framtíðina.

Bebel sagði kristindóminn hafa kúgað konur og ólíkt Marx og Engels, sem einblíndu á stöðu kvenna í samhengi við fjölskyldu og atvinnu, ræddi hann um kynferði og kynfrelsi fólks. Hann sagði að „fyrir báða aðila er kynhvötin auk þarfarinnar fyrir svefn og mat sterkasta eðlishvötin hjá mönnunum“ og að „[s]kortur á fullnægingu kynferðislegra þarfa þýði óheilbrigðan líkamlegan og andlegan þroska.“


Bebel hélt áfram fyrri gagnrýni Marx og Engels á hjónabandinu. Auk þess sem hann skoðaði stöðu kvenna út frá vændi, kosningaréttinum og félagslegri mótun þeirra. Á þeim tíma, sem konur voru taldar nátturulega minna gáfaðar heldur en karlar. Hann benti hins vegar á í bók sinni að minni þekking kvenna væri ekki af náttúrunnar hendi, heldur hefðu karlar mótað þær á þennan hátt með því að meina þeim um skólagöngu, atvinnu og þátttöku í stjórnmálum. August Bebel sá fyrir sér framtíð jafnaðarstefnunnar sem jafnréttissinnað samfélag þar sem konur og karlar væru virt sem einstaklingar og ynnu samhliða.

Engin ummæli: