Hvað einkalíf kvenna varðaði hafði Engels rómantískar hugmyndir um að í kommúnísku ríki framtíðarinnar yrði fólk ástfangið og réði því sjálft hverjum það giftist. Alexandra Kollontai (f. 1872 – d. 1952), ein af fáum háttsettum, kvenkyns bolsévikum, var á sama máli og var eini kommúnisti síns tíma sem hélt áfram að þróa hugmyndir Engels.

Í Rússlandi voru hugmyndir Bebel og Zetkin einnig vel þekktar. Eftir að Kollontai hitti Zetkin persónulega árið 1906 sannfærðist hún um nauðsyn þess að skipuleggja kvennasamtök verkakvenna. Kollontai var eini leiðtoginn sem opinberlega tengdi við persónulegt frelsi, jafnrétti og virðingu milli kvenna og karla í einkalífinu. Hún upplifði hnignun bolsvísku hugsjónarinnar og tímabil mun íhaldsamari hugmynda eftir árið 1936.

Bolsévikar voru ekki aðeins undir evrópskum áhrifum heldur voru frelsun kvenna og frjálsar ástir einnig gömul byltingartengd gildi í Rússlandi. En líkt og aðrir bolsévikar tengdi Kollontai fjölskylduna við eignarhald kapítalismans. Hún varð fyrst til þess að koma fram með marxíska greiningu á því hvernig fjölskyldan tapaði framleiðsluhlutverki sínu á leiðinni frá bændasamfélagi í öreigasamfélag. Í bændasamfélaginu hafði fjölskyldan verið sjálfbær efnahagsleg eining en með tilkomu iðnvæðingarinnar hafi hún breyst í lokaða efnahagslega einingu, þar sem karlinn var fyrirvinnan og konan háð honum. Þessu vildi hún breyta og sagði kommúnisma vera leiðina til þess. Með því að samfélagsvæða hlutverk fjölskyldunnar, uppeldi barnanna, matargerð, fatagerð og svo framvegis varð til nýtt form. Þessi kenning tengdist hugmyndum hennar um kynfrelsi einstaklinga. Að losna undan arfi eignarhalds karla á konum og skapa jafnræði þeirra á milli. Í anda bolsévika skrifaði Kollontai

"Þegar fjölskyldan er frjáls undan öllum efnahagslegum skyldum, ber ekki ábyrgð á komandi kynslóð, og er ekki lengur grundvallar uppspretta tilvistar kvenna, hættir hún að vera fjölskylda. Hún minnkar og breytist í samband milli hjóna, sem byggir á gagnkvæmum samningi ... [f]jölskyldan sem efnahagsleg eining, og líka sem eining foreldra og barna, er dæmd til þess að hverfa" (Møller o.fl. 1977: 438).

En róttækar hugmyndir Kollontai og bolsévikanna áttu ekki uppi á pallborðið hjá öllum og voru með tímanum gagnrýndar harkalega. Eftir borgarastríð og harða vetur í Rússlandi vildu konur ekki lengur leysa upp fjölskylduna heldur upphöfðu móðurhlutverkið. Síðar var hætt að gefa út verk Kollontai. Hún var send í útlegð frá Rússlandi og hugmyndir hennar viku fyrir mun íhaldsamari hugmyndum um minna persónulegt og félagslegt frelsi.

Engin ummæli: